Sigríður Bylgja Sigurjónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Pírata. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef Pírata fyrir stundu.

Sigríður Bylgja er með BA gráðu í HHS (heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði) frá Háskólanum á Bifröst og MSc í Mannvistfræði frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð. Hún hefur starfað sem verkefnastjóri hjá Starfsgreinasambandi Íslands og Landvernd. Einnig hefur hún starfað hjá Utanríkisráðuneytinu og Saga fest. Auk þess var hún handritshöfundur og framleiðandi heimildarmyndarinnar USE LESS í samstarfi við Vesturport og Vakandi.

Í tilkynningnni segir jafnframt að um þrjátíu umsækjendur hafi sótt um stöðu framkvæmdastjóra Pírata. Af þeim voru átta boðaðir í viðtöl og umsóknir þeirra lagðar fyrir framkvæmdaráð. Framkvæmdaráð samþykkti einróma að ráða Sigríði Bylgju sem framkvæmdastjóra.

Á facebook-síðu sinni segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, að ráðning Sigríðar sé gæfuspor fyrir flokkinn.