Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir helstu einkenni bankans vera þau að hann væri bæði gamaldags og íhaldssamur í meðferð lausafjár. Sigurjón segir bankann ekki hafa tekið óþarfa áhættur og til að mynda hefði bankinn ekkert fé sett í skuldabréfavafninga á undirlánamörkuðum sem nú skekja fjármálamarkaði.

Þetta sagði hann í ræðu á fundi Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York fyrir stundu.

Sigurjón sagði að neikvæð umfjöllun um íslenskt efnahagslíf árið 2006 hefði verið það besta sem nokkurn tímann gat komið fyrir bankann. Bankinn hefði þá endurskoðað alla starfsemi sína og treyst undirstöður sínar enn frekar.

Hann sagði lausafjárstöðu bankans vera þrettánfalda endurgreiðslukrröfu hans. Endurgreiðslukrafa bankans á árinu væri um einn milljarður bandaríkjadala en bankinn hefði milli handanna minnst 13 milljarða bandaríkjadala.

Þá sagði Sigurjón að ekki væri vitað hversu lengi núverandi ástand myndi vara en staða Landsbankans væri engu að síður traust.