Kaup og sala Landsbankans á eigin hlutabréfum var eðlileg viðskiptavakt með eigin hlutabréf og búið að stunda lengi, að sögn Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans.

Sigurjón var í ítarlegu viðtali á kvöldfréttum Stöðvar 2 . Þar var hann m.a. spurður út í ákærur embættis sérstaks saksóknara á hendur sér og öðrum fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans vegna meintrar markaðsmisnotkunar, s.s. vegna kaupa bankans á eigin bréfum og sölu á þeim til félagsins Ímon. Félagið keypti 4% hlut í bankanum fyrir fimm milljarða króna í lok september árið 2008. Bankinn lánaði fyrir kaupunum. Tryggingar á móti láninu voru hlutabréfin sjálf og hlutur Ímons í sparisjóðnum Byr. Nokkrum dögum eftir viðskiptin fór Landsbankinn í þrot.

Sigurjón sagðist ekki hafa skipað fyrir um að bankinn ætti að kaupa stærri hluta af eigin hlutabréfum en tíðkaðist. Viðskiptin voru eðlileg að hans mati og starfsmenn bankans aðeins að sinna vinnu sinni. Bankinn hafi ætíð átt stóran hluta af eigin bréfum, stundað viðskiptin lengi og hafi það verið hluti af viðskiptavakt með bréfin.

„Þetta var búið að vera nánast frá upphafi þegar bankinn var skráður. Þetta var allavega búið að vera í gangi áður en ég byrjaði að vinna í bankanum,“ sagði Sigurjón.

Sigurjón hóf störf hjá bankanum seint í apríl árið 2003.