Sigurður Einarsson stjórnarformaður Kaupþings [ KAUP ] sagði í ræðu sinni á aðalfundi bankans að erfitt væri að skilja hvers vegna skuldatryggingaálag hans væri jafn hátt og raun ber vitni og sagði erfitt að átta sig á markaðnum með skuldatryggingar. Markaðurinn væri óskipulagður, engin leið væri að finna út hvert verðið væri, hver veltan væri eða hverjir ættu viðskipti á markaðnum. Hann sagðist þó telja að með tímanum mundi skuldatryggingaálagið lækka enda væri það úr takti við raunverulega stöðu bankans. Hann nefndi að ein af skýringunum á háu álagi nú kunni að vera að skuldabréf íslensku bankanna hafi verið mikið notuð í skuldabréfavafninga (CDO). Nú, þegar verið sé að vinda ofan af þeim vafningum, verði offramboð sem geti skýrt ástandið tímabundið.

Samþykkt að fresta breytingu hlutafjár í evrur

Á aðalfundinum var samþykkt að fresta því til næstu áramóta að breyta hlutafé bankans í evrur. Sigurður sagði umsóknarferlið hafa dregist og að þar sem liðnir væru tveir mánuðir af árinu væri ekki hægt um vik úr þessu að breyta hlutafénu. Hann sagði stjórnvöld vinna ötullega að því að gera breytingu hlutafjár yfir í evrur mögulega. Ákveðið hefði verið að draga umsóknina til baka nú og breyta hlutafénu í evrur um næstu áramót.

Unnið að samþættingu, endurskipulagningu og hagræðingu í ár

Um árið 2008 sagði Sigurður að áfram yrði unnið að samþættingu starfseminnar og lögð áhersla á að allar einingar standi undir arðsemismarkmiðum. Hann sagði stefnt að hækkuðu innlánahlutfalli og endurskipulagningu, og vísaði í því sambandi m.a. til nýlegra breytinga hjá Kaupthing Singer & Friedlander í Bretlandi. Þá sagði hann að einbeittur vilji væri til að ná niður kostnaði. Árangur af því ætti að sjást strax á fyrsta ársfjórðungi en svo mundi frekari árangur sjást eftir því sem liði á árið.

Engin kreppa framundan

Sigurður sagði að ástand á mörkuðum væri búið að vera erfitt fyrir fjármálastofnanir. Hann sagðist þó ekki telja að alþjóðleg kreppa sé framundan og nefndi að sú skoðun hefði verið sett fram, að áhrif af undirmálslánakrísunni yrði meira en vegin upp með vexti utan Vesturlanda.

Sigurður sagði árið í fyrra hafa verið afar kaflaskipt og nánast eins og tvö ár. Um það mætti segja, líkt og um manninn sem er með fæturna í bakaraofninum og höfuðið í ísskápnum, að það hafi að meðaltali verið nokkuð gott.