Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings banka hf., hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem kemur fram að stjórnendum Kaupþings þótti sjálfsagt að liðka til fyrir kaupum Al-Thani með þeim hætti sem kostur var.

Í yfirlýsingunni segir: ,,Vegna misvísandi umfjöllunar fjölmiðla í tengslum við kaup H:H. Sheikh Mohamed bin Khalifa Al-Thani á rúmlega 5% hlut í Kaupþingi vill undirritaður koma eftirfarandi á framfæri:

Forsvarsmenn Kaupþings, líkt og stjórnendur fjölmargra annarra banka, höfðu um nokkurt skeið reynt að fá til liðs við bankann stönduga fjárfesta í Mið-Austurlöndum. Það var bankanum því sérstakt fagnaðarefni þegar Sheik Al-Thani, bróðir Soldánsins af Katar, samþykkti að kaupa 5% hlut í bankanum. Í ljósi mjög erfiðra aðstæðna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum þótti stjórnendum Kaupþings sjálfsagt að liðka til fyrir kaupunum með þeim hætti sem kostur var. Dótturfélag Kaupþings í Mið-Austurlöndum sem starfaði í Katar og Dubai, var þá þegar komið í ábatasöm viðskipti við Sheik Al-Thani í Katar og fyrirheit komin um umfangsmikil áframhaldandi viðskipti.

Sheik Al-Thani keypti hlutinn í Kaupþingi í gegnum eignarhaldsélagið Q Iceland Finance ehf. og voru þær fjárfestingar að hluta gerðar í formi persónulegra ábyrgða Sheik Al-Thani sem síðar átti að umbreyta í veðtryggingar í eigum hans. Félög í eigu Sheik Al-Thani og aðila tengdum honum fengu lán að samtals fjárhæð 25,6 milljarða ISK. Þar af var Sheik Al-Thani í sjálfsskuldarábyrgðum fyrir peningamarkaðslánveitingu að fjárhæð 12,8 milljarðar ISK, eða fyrir helmingi fjárfestingarinnar en eftirstöðvar voru tryggðar með þeim hlutum sem Q Iceland Finance ehf. hafði fjárfest í Kaupþingi. Rétt er að taka fram að seljandi hlutanna var Kaupþing og engir fjármunir fóru út úr bankanum vegna þessara viðskipta. Hlutirnir sem Sheik Al-Thani keypti voru því hlutir sem hundruð ef ekki þúsundir íslenskra fjárfesta höfðu selt bankanum síðustu vikurnar fyrir kaupin og voru engir innherjar þeirra á meðal.

Þegar þessi kaup Sheik Al-Thani áttu sér stað var staða Kaupþings góð og bankinn átti umtalsvert laust fé. Þrátt fyrir það var skuldatryggingaálag bankans mjög hátt. Að tillögu Deutsche Bank hóf Kaupþing að undirbúa fjármögnun með þýska bankanum að kaupum á skuldatryggingum á Kaupþing með verulegum afföllum. Félag í eigu Sheik Al-Thani fékk 50 milljónir dala lánaðar frá Kaupþingi í tengslum við slík kaup og átti von á frekari fyrirgreiðslu frá Kaupþingi og Deutsche Bank vegna þessa. Hins vegar varð ekkert af fjárfestingu í skuldatryggingum þar sem bankinn féll í millitíðinni. Við fall íslensks bankakerfis og efnahagslífs hrundi íslenska krónan sem gerði Sheik Al-Thani kleift að draga úr því tjóni sem hann hafði orðið fyrir vegna kaupa á hlutum í Kaupþingi.

Ég vil undirstrika að engir fjármunir hafa verið færðir með óeðlilegum eða ólögmætum hætti úr sjóðum bankans, hvorki til eigenda hans né annarra. Enginn hagnaður hefur orðið til vegna sérstakra samninga við valinn hóp viðskiptavina bankans eða eigenda. Ég er þess fullviss að starfsemi bankans hafi alla tíð verið innan þess ramma sem lög og reglur um rekstur hans hafa kveðið á um. Þeim rannsóknum sem nú standa yfir á starfsemi bankans fagna ég. Ég harma hins vegar þær röngu fréttir og tilhæfulausu fullyrðingar sem fallið hafa um bankann á síðustu vikum."