Félag tengt Sigurði G. Guðjónssyni, stjórnarformanni útgáfufélagsins Árs og dags, hefur ekki gert tilboð í Tímaritaútgáfuna Fróða, en Sigurður hefur verið orðaður við fyrirtækið undanfarna daga.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Sigurður að hann hafi á föstudaginn átt fund með framkvæmdastjóra Fróða, Elínu Ragnarsdóttur, sem unnið hafi á Stöð 2 þegar hann var þar við stjórnvölinn. "Síðan hef ég ekki haft undan því að svara fyrirspurnum [um hvort til standi að ég kaupi fyrirtækið]," segir hann.

Sigurður segist þó ekkert útiloka í framtíðinni -- hann hafi áður skoðað Fróða og muni halda áfram að gera það. "Það liggur ekkert fyrir eins og staðan er í dag, nema bara að menn hafa skoðað félagið," segir hann.