Auðkýfingurinn Silvio Berlusconi, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, lét höggin dynja á Mario Monti, eftirmanni sínum í ráðherrastóli og var með yfirlýsingar á alla kanta í viðtali við ítalska dagblaðið il Giornale í dag. Erlendir fjölmiðlar segja ljóst að fiðringur sé kominn í Berlusconi, sem sagði af sér sem forsætisráðherra Ítalíu í nóvember í fyrra eftir að Angela Merkel og fleiri ráðamenn evruríkjanna hundskömmuðu hann fyrir slælega efnahagsstjórn og hefur lítið borið á honum síðan þá.

Berlusconi sagði m.a. aðhaldsaðgerðir Evrópusambandsins óraunsæjar og hvatti til skattalækkana til að keyra hagvöxt upp. Skatturinn sem Berlusconi lagði ríka áherslu á að afnema var sérstakur fasteignaskattur sem ríkisstjórn Montis innleiddi og var hann liður í aðhaldsaðgerðum til að forða landinu frá gjaldþroti. Ríkisstjórnin var ekki kosin á þing heldur samanstendur hún af hópi sérfræðinga. Hlutverk hennar var að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl.

Berlusconi hefur um árabil verið á meðal auðugustu manna á Ítalíu og var samfleytt í 17 ár í fararbroddi í ítölskum stjórnmálum þar til hann dró sig í hlé í fyrra. Reuters-fréttastofan segir ekkert koma fram í viðtalinu hvort  Berlusconi, sem er 75 ára, veiti vísbendingar um það hvort hann hyggi á endurkomu í stjórnmálin.

il Giornale er í eigu fjölmiðlasamsteypu Berlusconi.