Hlutabréfamarkaðir lækkuðu í Bandaríkjunum í dag eftir að hafa hækkað síðustu þrjá daga en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar er talið að hugmyndir Barack Obama, verðandi forseta BNA um skattalækkanir fyrirtækja muni ekki duga til að koma í veg fyrir mikið tap þeirra og hugsanleg gjaldþrot.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 0,3%, Dow Jones um 0,9% og S&P 500 um 0,5%. Markaðir sýndu rauðar tölur í allan dag þó lækkunin hafi minnkað eftir því sem leið á daginn.

Ólíkt því sem gerðist í Evrópu í dag lækkuðu símafyrirtæki í vestanhafs eftir að greiningarfyrirtækið Sanford C. Bernstein & Co. sagði að vegna samdráttar sé aukin hætta á því að almenningur minnki síma og internet notkun verulega. Sem dæmi má nefna að AT&T lækkaði um 3,4% og Verizon um 6,2%

Nú þegar má sjá ummerki þess að fólk hafi minnkað niðurhal og aðrar þjónustur farsíma. Þá sagði greiningardeild Bernstein að hlutabréf í helstu símarisunum hefðu hækkað of hratt á of skömmum tíma og hætta væri á hröðu falli þeirra.

Olíuverð hélt áfram að hækka vegna átakanna fyrir botni Miðjarahafs og hækkaði um 4,6% í dag. Við lok markaða í New York kostaði tunnan af hráolíu 48,47 Bandaríkjadali. Þá hefur verð á gasi einnig hækkað vegna deilna milli Rússa og Úkraínumanna en gas hækkaði um 1,7% í dag.