*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 1. mars 2006 09:41

Símaskráin verður prentuð í Póllandi

Ritstjórn

Símaskráin 2006 verður prentuð í Póllandi að þessu sinni en það verður áfram Prentsmiðjan Oddi sem hefur umsjón með verkefninu. Að sögn Þorgeirs Baldussonar, forstjóra Kvosar ehf, eignarhaldsfélags Prentsmiðjunnar Odda, fer allur undirbúningur og vinnsla verkefnisins fram hér á landi en prentunin sjálf verður í höndum undirverktaka í Póllandi. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

"Við erum alþjóðlegt fyrirtæki með starfsemi í fjórum löndum og við leitum einfaldlega allra leiða til þess að gera þetta eins hagkvæmt og kostur er," sagði Þorgeir en sterk staða krónunnar hefur nokkuð með það að gera að prentunin er flutt út til Póllands. Prentunin sjálf fer þó ekki fram í prentsmiðju Odda í Póllandi heldur verður notast við undirverktaka, eins og áður sagði.

Prentun Símaskrárinnar er stærsta einstaka prenverkefnið hér á landi hverju sinni en símaskráin er prentuð í 230 þúsund eintökum og dreift á hvert heimili. Eftir því sem komist verður næst nemur kostnaður við að prenta Símaskrána ríflega 100 milljónum króna fyrir utan pappírskostnað.

Að sögn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Já, sem sér um útgáfu Símaskrárinnar þá er það alfarið mál Odda að þessi háttur er á en samningur er á milli félaganna um prentun Símaskrárinnar. Sá samningur er með uppsagnarákvæði sem heimilar Já að segja samningnum upp í sumar.