Á aðeins liðlega hálfu ári hefur Síminn keypt fimm fjarskiptafyrirtæki í Danmörku og þau hafa nú öll verið sameinuð undir einum hatti, Síminn Danmark.

Frá þessu er greint í ýtarlegri umfjöllun Børsen undir fyrirsögninni: Nýr og stór þátttakandi í fyrirtækjafjarskiptum.

Þar kemur fram að Síminn hafi fjárfest fyrir fimm til sjö milljarða íslenskra króna í dönskum fjarskiptafyrirtækjum sem hann hafi nú steypt saman og hið nýja félag, Síminn Danmark, stefni að auknum umsvifum, einkum með innri vexti en útiloki þó ekki að ráðist verði í frekari uppkaup.

Starfsmenn hjá Síminn Danmark er nú allir á einum og sama staðnum en þeir eru 70 talsins og velta fyrirtækisins í fyrra nam um 200 milljónum danskra króna, eða um 2,7 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Framkvæmdastjóri Síminn Danmark er Dani, Rasmus Helmich.

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .