Fjarskipti hf. hefur borist krafa frá Símanum um skaðabætur vegna meintrar ólögmætrar notkunar á vörumerkinu Tímaflakk. Krafan er að fjárhæð 400 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar .

Fjarskipti segjast ekki telja grundvöll fyrir kröfunni og segir ágreining um skráningu Símans á vörumerkinu ekki hafa verið leiddan til lykta.

„Fyrir liggur nýlegur úrskurður Einkaleyfastofu, frá 12. febrúar 2015, sem kveður á um að skráning Símans á orðmerkinu Tímaflakk skuli halda gildi sínu. Fjarskipti hf. hafa ákveðið að bera úrskurðinn undir áfrýjunarnefnd í vörumerkjamálum. Auk þess telur Fjarskipti hf. fjárhæð bótakröfunnar í engu samræmi við málsatvik og dómafordæmi,“ segir í tilkynningunni.