Síminn hefur gert nýjan fimm ára samstarfssamning við Ericsson um frekari útbreiðslu og öflugra farsímanet Símans hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Samhliða uppsetningu 4G LTE snjallsenda verður farsímakerfið allt uppfært til að tryggja uppbyggingu netkerfis á heimsmælikvarða, að því er fram kemur í tilkynningunni. Ericsson mun leggja til allan fjarskiptabúnað og sameiginlegt miðlægt kerfi farsíma.

„Ericsson er einn mikilvægasti samstarfsaðili Símans til áratuga. Með þessum samningi tryggjum við áframhaldandi öflugt og sveigjanlegt samstarf í þágu neytenda. Við viljum auka þjónustu við viðskiptavini okkar og gera þeim kleift að nýta sér til fulls háhraðanet Símans fyrir farsíma. Við einbeitum okkur að því að stækka og bæta farsímakerfið fyrir fólk á ferðinni og munum tryggja framúrskarandi nettengingu fyrir farsíma, spjaldtölvur og fartölvur um allt land,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Fram kemur í tilkynningunni að 40% af allri farsímaumferð í heiminum fari um netkerfi frá Ericsson og það sé tvöfalt meira en næsti keppinautur státi af. Fyrirtækið starfar á öllum helstu LTE-mörkuðum heims, þ.m.t. í Bandaríkjunum, Japan og Suður-Kóreu, og er efst á lista yfir fyrirtæki sem meðhöndla mesta LTE-umferð á heimsvísu.

„Ör vöxtur á umferð farsímagagna ásamt síauknum kröfum viðskiptavina gerir meiri kröfur um aukna afkastagetu og því er nauðsynlegt að ráðast í mikla stækkun á LTE-kerfinu. Með þessu samstarfi skapast ný og spennandi tækifæri fyrir fyrirtæki og fólk á Íslandi. Ericsson er í fararbroddi á sviði LTE á heimsvísu og við erum staðráðin í að hjálpa Símanum að mæta aukinni eftirspurn eftir breiðbandsneti á Íslandi,“ segir Charlotta Sund, yfirmaður Norður-Evrópu og Mið-Asíu-skrifstofu Ericsson.