Ákveðið hefur verið að sameina Símann og Skjáinn. Öll starfsemi Skjásins á sviði miðlunar og afþreyingar færist til Símans og verður rekin af Símanum. Sameiningin kemur í kjölfar sáttar við Samkeppniseftirlitið um að aflétta hluta af þeim kvöðum sem lagðar voru á Símann og Skjáinn á árinu 2005. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Sú þjónusta sem um ræðir eru Skjáreinn, Skjárbíó, Skjárkrakkar, Skjárheimur, Skjársport og Útvarpsstöðin K100,5. Eftir sameininguna býður Síminn fjórþætta þjónustu; talsíma, farsíma, netþjónustu og sjónvarpsefni.

„Við höfum viljað breyta þeim kvöðum sem voru settar á sínum tíma og endurspegluðu stöðu sem er ekki til staðar lengur á markaðnum. Það er ljóst að þessu skrefi mun fylgja töluverð rekstrarhagræðing þar sem við rekum í einhverjum tilvikum svipaðar einingar á tveimur stöðum. Í kjölfar sameiningar mun ekki verða sérstök yfirstjórn yfir þeim þjónustuþáttum sem færast til Símans. Ég vil þakka Friðrik kærlega fyrir vel unnin störf á undanförnum árum og óska honum velfarnaðar,“ segir Orri Hauksson, forstjóri Símans.

Starfsemi Skjásins flyst mestu í húsnæði Símans í Ármúla 25 á næstu vikum. Starfsfólk Skjásins verður starfsfólk Símans eftir sameiningu. Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins mun vinna að sameiningunni með stjórnendum og starfsfólki Símans og Skjásins en lætur svo af störfum, þar sem ekki verður sérstök yfirstjórn yfir sjónvarpsstarfsemi Símans.

„Skjárinn hefur aldrei staðið betur en einmitt nú og ég er stoltur af þeim árangri sem náðst hefur með félagið á undanförnum árum og er viss um að þessi eðlilega breyting sé til farsældar bæði fyrir viðskiptavini Skjásins og starfsfólk félagsins,“ segir Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Skjásins.