Spænska fjarskiptafélagið Telefonica og Síminn hafa undirritað samning um víðtækt samstarf sem nær meðal annars til innkaupa, reikiþjónustu, stafrænna lausna og fjölþjóðlegrar þjónustu.  Samstarfið er stutt af Telefonica Partners Program en innan þess eru helstu fjarskiptamarkaðir í Evrópu, Suður-Ameríku, Asíu, Miðausturlöndum og Afríku. Telefonica er eitt stærsta fjarskiptafélag í heimi með starfsemi í 21 landi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Símanum.

Orri Hauksson forstjóri Símans segir markmið samstarfsins vera að bjóða viðskiptavinum upp á nýjustu tækni eins hratt og kostur er og að fá búnað á sem hagstæðustu verði. „Samstarf við Telefonica um nýsköpun og þróun gefi Símanum enn betri möguleika á árangri á fjarskiptamarkaðnum,“ segir í tilkynningunni.

„Við höfum lagt meiri áherslu á nýsköpun innan Símans síðustu misserin með það að markmiði að 25% tekna fyrirtækisins komi af nýjum vörum í árslok 2020. Þetta er metnaðarfullt markmið en nauðsynlegt á fjarskiptamarkaði sem er í örri þróun. Samstarfið við Telefonica er áfangi á leið okkar að því marki og kemur til með að styrkja Símann,“ er haft eftir Orra.

Telefonica framarlega á öllum sviðum

Guðjón Leifsson þróunarstjóri leiðir samstarfið fyrir hönd Símans: „Það segir sitt um styrk Telefonica að félagið rekur sinn eigin háskóla og við hjá Símanum munum nú eiga greiðan aðgang að aukinni þekkingu og reynslu innan félagsins.“

Hann segir Telefonica standa mjög framarlega á öllum sviðum, bæði í fjarskiptum og nýsköpun. „Við erum spennt fyrir lausnunum sem Telefonica býður í sambandi við  nettengda hluti, hinna ýmsu öryggislausna yfir netið og gagnaöflun um það. Þá horfum við til  Bretlands, Þýskalands, Spánar og Brasilíu. Margt af því sem Telefonica hefur þegar markaðssett eða er með í vinnslu,  er það einnig hjá Símanum. Við sjáum því strax ávinning af samstarfinu,“ segir Guðjón.

Mario Martín, forstöðumaður alþjóðlegs fyrirtækjasamstarfs Telefonica, segir: „Við erum afar ánægð með að hafa stigið þetta skref og hafið samstarf við Símann sem er leiðandi fjarskiptafyrirtæki á Íslandi.  Þetta samstarf styrkir bæði félögin þar sem þau geta saman nýtt tækifærin sem stafræna byltingin býður upp á. Við erum sannfærð um að þessi samningur færir báðum félögum mikinn ávinning.“