Leikarinn Sir Christopher Lee er látinn, 93 ára að aldri. Lee var sæmdur riddaraorðu árið 2009 fyrir störf sín í þágu leiklistar.

Lee reis til frægðar árið 1958 þegar hann lék Drakúla, hann varð svo eitt eftirminnilegasta Bond illmennið þegar hann lék Francisco Scaramanga í Bond myndinni The Man With The Golden Gun, árið 1974. Hann lék í yfir 280 kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en var ef til vill þekktastur fyrir leik sinn sem Sarúman hinn hvíti í Hringadróttinssögu.

Birgit Kroencke kona Lee til fimmtíu ára ákvað að bíða með að tilkynna andlát hans þangað til fjölskyldumiðlimir hefðu fengið fregnirnar. Samkvæmt heimildum the Daily Telegraph lést Lee á sunnudagsmorgni klukkan hálf níu á Chelsea and Westminster spítalanum í London þar sem hann hafði verið sjúklingur í þrjár vikur.

Lokamynd Lee, kvikmyndin Angels in Notting Hill í leikstjórn Michael Pakleppa er væntanleg í kvikmyndahús á þessu ári.