Upplýsingatæknifyrirtækið Sirius IT, dótturfélags Skipta, vinnur nú að hönnun kerfis vegna einkavæðingar á lyfjasölu í Svíþjóð. Hingað til hefur sala lyfja í landinu verið í höndum sænska ríkisins undir heitinu Apoteket. Slíkt samræmist ekki reglum Evrópusambandsins sem Svíþjóð er aðili að og er því unnið að breytingum á því.   „Sænska þingið mun væntanlega samþykkja ný lög í dag um breytingar á lyfjasmásölunni. Það liggur í því að hún verður einkavædd. Stóru verslanakeðjurnar sjá fram á að geta nú byrjað á smásölu með lyf, og er okkar verkefni tengt því," segir Hreinn Jakobsson, stjórnarformaður Sirius IT.   Hér á landi er fyrir mörgum árum búið að breyta reglum um lyfsölu og leiddi það til þess að stór fyrirtæki keyptu upp lyfjaverslanir sem voru reknar samkvæmt einkaleyfum apótekara víða um land. Í Danmörku var einkasala ríkisins á lyfjum afnumin fyrir um 15 árum.   Í Svíþjóð hefur til þessa verið litið á lyfsölu sem hluta af sænska velferðarkerfinu sem á sér sterka hefð. Evrópudómstóllinn úrskurðaði einkasölukerfi Svía hins vegar ólöglegt fyrir nokkrum árum og mun afnám á einkasölu ríkisins í raun vera svar við þeim úrskurði.