Danska fyrirtækið Sirius IT, eitt dótturfyrirtækja Skipta hf., hefur þróað raddgreinibúnað sem danska þingið tók í notkun nú í haust. Með búnaðinum er hægt að birta allar þingræður á vef þingsins í textaformi nokkrum klukkustundum eftir að ræðurnar eru fluttar, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Raddgreinibúnaðurinn, sem kallast Edixi, hefur verið í þróun um nokkurt skeið og þekkir hann nú um 100.000 dönsk orð. Samkvæmt mælingum er nákvæmni hans 94% til að byrja með en mun svo aukast í 97-100% eftir því sem meiri reynsla fæst af búnaðinum í þinginu.

Ferlið fer þannig fram að allar ræður í þinginu eru teknar upp stafrænt. Ræðurnar eru síðan endurfluttar fyrir búnaðinn, sem setur þær í textaform og birtir á vef danska þingsins.

Þessi nýja þjónusta danska þingsins hefur vakið talsverða athygli þar í landi, enda gerir hún að verkum að almenningur getur nú nálgast þingræður mun fyrr en áður. Danskir fjölmiðlar hafa fjallað umtalsvert um þjónustuna og Edixi-búnaðinn frá Sirius IT.

Hjá Sirius IT starfa um 400 manns en fyrirtækið er með starfsemi í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Sirius IT er eitt dótturfyrirtækja Skipta hf. erlendis en önnur dótturfyrirtæki Skipta erlendis eru fjarskiptafyrirtækin Aerofone í UK og Business Phone í DK.