Pistlahöfundurinn Jonathan Guthrie sem hefur getið af sér gott orð í gegnum tíðina með pistlum í svokölluðum Lombard dálki hjá Financial Times fer hörðum orðum um rannsókn SFO í Bretlandi á málefnum Robert Tchenguiz.

SFO hætti rannsókn á máli Tchenguiz fyrir stuttu en leitarheimildir vegna málsins voru dæmdar ólögmætar í júlí. Þá sagði SFO að eftirlitið myndi halda áfram rannsókn á hendur Tchenguiz vegna viðskipta hans og Kaupþings með auknum krafti.

Í pistli Guthrie segir hann málið vandræðalegt fyrir SFO og að reka ætti starfsmenn hjá embættinu. Þá ætti að biðja Tchenguiz bræður afsökunar á því hvernig komið hafi verið fram við  þá, meðal annars með húsleitum þegar verið var að halda árlegt teiti. Þá segir Guthrie að rannsókn SFO hafi verið full af vanhæfni starfsmanna.

Að lokum klykkir Guthrie út með að hafa erlent nafn og sjáanleg bringuhár sé ekki nóg til að vera svikahrappur. Heldur ekki að halda fjörug partý.