Fimm einstaklingar hafa boðið sig fram í stjórn Vátryggingafélags Íslands, VÍS, en hluthafafundur félagsins fer fram þann 30. maí næstkomandi. Fimm manns skipa stjórnina og er því sjálfkjörið í hana. Sama á við um varastjórn.

Þau sem munu því skipa stjórn VÍS eru þau Ásta Dís Óladóttir, Guðrún Þorgeirsdóttir, Friðrik Hallbjörn Karlsson, Helga Jónsdóttir og Steinar Þór Guðgeirsson. Aðeins þær Guðrún og Helga sitja nú í stjórn og því ljóst að um töluverða nýliðun verður að ræða, enda hefur eignarhald á félaginu breyst umtalsvert eftir hlutafjárútboð og skráningu á markað. Þeir Benedikt Jóhannesson, Magnús Sch. Thorsteinsson og Ingi Rafn Jónsson ganga úr stjórninni.

Varastjórn VÍS samkvæmt þessu munu skipa þau Árni Hauksson, Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir, Brynja Dögg Steinsen, Davíð Harðarson og Óskar Hauksson.