Ný rannsókn sýnir að þegar sjálfstýrðir bílar koma á markað, sem verður fljótlega, muni þeir strax ná miklum vinsældum. Þetta sýna niðurstöður rannsóknarinnar “Emerging Technologies: Autonomous Cars — Not If, But When“.

Niðurstöður benda til þess að árið 2035 verði helmingur allra nýrra bíla í Bandaríkjunum sjálfstýrðir. Það ár verði 11,8 milljónir nýrra bíla seldir um allan heim. Árið 2050 verða næstum allir nýir bílar sjálfstýrðir.

Fréttastofa NBC sjónvarpsstöðvarinnar segir að framleiðendur Nissan hafi lofað því fyrir skömmu síðan að fyrstu sjálfstýrðu bílarnir verði framleiddir árið 2020. Margir bílaframleiðendur hafi fylgt eftir með svipuðum yfirlýsingum. Fyrstu gerðirnar verða þó þannig að ökumenn þurfa að vera í bílnum til að grípa inn í ef einhver vandamál koma upp. Það er svipað fyrirkomulag og er á sjálfstýringu flugvéla nú til dags. Árið 2030 verði bílarnir orðnir svo tæknilegir að ekki þurfi neina ökumenn.