Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, hefur tekið aflaregluna til endurskoðunar og gæti því niðurskurður í þorskaflaheimildum orðið meiri en undanfarin ár þegar farið var eftir 25% veiðihlutfalli reglunnar. Hafrannsóknastofnun hefur í nokkur ár ráðlagt að veiðihlutfallið yrði lækkað niður í 20% af viðmiðunarstofni þorsks en samkvæmt þeirri reglu yrði þorskkvóti næsta fiskveiðiárs 130 þúsund tonn, samanborið við 178 þúsund tonn með núgildandi aflareglu.

Einar segir að unnið sé að breytingunni í víðtæku samráði við sveitarfélög, hagmunaaðila í sjávarútvegi og öllum þingflokkum. Hagfræðistofnun vinni að skýrslu um þjóðhagsleg áhrif breytinganna á einstaka landshlut og byggðarfélög til legnri og skemmri tíma. "Ákvörðunin mun svo væntanlega liggja fyrir í byrjun næsta mánaðar," segir Einar í samtali við Viðskiptablaðið.

Greiningardeildir bankanna og LÍÚ áætla útflutningsverðmæti sjávarútvegsins gæti dregist saman um allt að 20 milljörða króna verði farið að fullu eftir tillögum Hafró. Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir að útgerðin gæti tæplega þolað svo mikinn samdrátt á einu bretti. "Við göngum á fund sjávarútvegsráðherra á morgun [í dag] og munum kynna honum okkar tillögur," segir Friðriki, sem vildi þó ekki upplýsa hve mikla veiði sambandið telur ráðlagða.

Ljóst er að niðurskurður í þorskveiðum mun hafa misjöfn áhrif á atvinnulíf eftir landshlutum, en hlutfallslega er flest störf tengdum þorskveiðum á Vestfjörðum og fæst á höfuðborgarsvæðinu. Í þjóðhátíðarræðu sinni á sunnudaginn vísaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, til stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þar sem segir að huga skuli að sérstaklega að áhrifum kvótakerfisins á þróun byggða í landinu.

"Það er skylda ríkisvaldsins að koma þeim byggðarlögum til hjálpar þar sem grundvöllur atvinnustarfsemi og samfélags brestur," sagði Geir ennfremur og má því telja líklegt að ríkisstjórnin grípi til einhvers konar aðgerða gangi sjávarútvegsráðherra að tillögum Hafrannsóknarstofnunar.