Vísbendingar eru um að auknar beinar lánveitingar lífeyrissjóðanna á fasteignamarkaði hafi dregið úr fjármögnunargetu og aukið fjármögnunarkostnað bankanna á skuldabréfamarkaði.

Sértryggð skuldabréf bankanna eru ein helsta fjármögnunarleið þeirra á markaði, en bréfin eru tryggð með veði í fasteignalánum. Eftir því sem lífeyrissjóðirnir veita stærra hlutfall slíkra lána með beinum hætti dregur því þar með úr getu bankanna til að sækja fjármagn á skuldabréfamarkaði, en lífeyrissjóðirnir sjálfir hafa einmitt verið helstu kaupendur sértryggðu bréfanna.

Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, segir hluta af starfsemi lífeyrissjóðanna falla undir svokallaða skuggabankastarfsemi, en grunnhlutverkið ekki.

Ávöxtun og útgreiðsla lífeyris sem slík eigi þannig lítið skylt við skuggabanka, en beinar lánveitingar til heimila og fyrirtækja megi óumdeilanlega kenna við slíkt. Málið flækist hins vegar þegar um óbeinar lánveitingar sé að ræða.

„Línurnar eru ekkert mjög skýrar. Lífeyrissjóðir geta fjármagnað lánveitingar banka með því að kaupa af þeim sértryggð skuldabréf, og hafa fjármagnað Íbúðalánasjóð með sama hætti. Það er ekkert rosalega mikill munur á því og að lána beint.“ Bankarnir veiti þar vissulega milligöngu, en efnahagslegu áhrifin séu mjög svipuð. „Hvort sem sjóðurinn lánar beint til fasteignakaupa eða kaupir sértryggð skuldabréf bankanna – með veði í fasteignalánum þeirra – endar fjármagnið á sama stað.“

Sértryggða álagið tvöfaldast
Þótt varhugavert sé að lesa of mikið í hreyfingar á íslenskum skuldabréfamarkaði sökum smæðar er erfitt að líta fram hjá því í þessu samhengi að síðustu ár hefur vaxtaálag sértryggðra bréfa bankanna ofan á ríkisskuldabréf hækkað töluvert.

Álagið fór lægst í 12 punkta (0,12%) í september 2016, og var að meðaltali 37 punktar það ár. Árið 2018 hafði það tvöfaldast í 72 punkta og var 71 á síðasta ári. Það sem af er þessu ári er meðaltalið aðeins um 54 punktar sökum skarps falls seinnipart janúar, en er nú komið aftur í um 70 punkta.

Eins og fram kom í umfjöllun um skuggabankastarfsemi í fyrradag hafa hlutdeild lífeyrissjóðanna í heildarlánum til heimilanna, og hlutdeild slíkra lána af heildareignum sjóðanna, einnig tvöfaldast frá 2016.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .