Framtakssjóðurinn SRE I hefur keypt fasteignina við Þingvallastræti 23 á Akureyri sem hýsir Icelandair Hotel Akureyri. Seljandi fasteignarinnar er Þingvangur ehf.

Í tilkynningu kemur fram að eigendur SRE I eru margir af stærstu stofnanafjárfestum landsins. Það er Stefnir, dótturfélag Arion banka, sem rekur sjóðinn SRE I.

Þingvallastræti 23 er 3.600 fm. að stærð og var upphaflega byggt árið 1969. Eignin hýsti áður Iðnskólann á Akureyri og síðar Háskólann á Akureyri en húsið var endurbyggt og stækkað á síðasta ári.

Þar reka Icelandair Hotels nú heilsárshótel með veitingastað og aðstöðu fyrir ferðamenn allt árið. Leigusamningur er til 20 ára. Alls eru herbergin á hótelinu 63 talsins en að auki verða opnuð 37 gistiherbergi næsta vor.

SRE I er fyrsti framtakssjóður Stefnis sem sérhæfir sig í fjárfestingum í íslensku atvinnuhúsnæði. Framundan er mikil endurskipulagning á eignarhaldi atvinnuhúsnæðis hér á landi og hyggst Stefnir vera í fararbroddi í því ferli, líkt og í fjárfestingum sem tengjast endurskipulagningu á íslenskum fyrirtækjum.

Icelandair Hotel
Icelandair Hotel
© Aðsend mynd (AÐSEND)