Sjónvarpsútsendingar NFS á sérstakri rás verða aflagðar en leggja á stóraukna áherslu á þann þátt sem netmiðillinn visir.is leikur í fréttaþjónustu NFS; hvort sem um er að ræða ritaðan texta, talmál, lifandi myndir eða ljósmyndir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Á stjórnarfundi Dagsbrúnar sem haldinn var fyrr í dag voru teknar ákvarðanir um breyttar áherslur í rekstri Nýju fréttastofunnar, NFS. Markmiðið með breytingunum er annars vegar að lækka tilkostnað og hins vegar að leggja stóraukna áherslu á þann þátt sem netmiðillinn visir.is leikur í fréttaþjónustu NFS; hvort sem um er að ræða ritaðan texta, talmál, lifandi myndir eða ljósmyndir. Fréttavakt NFS verður staðin frá morgni til kvölds og mun visir.is kappkosta að vera ávallt ?fyrstur með fréttirnar," eins og segir í tilkynningunni.

Eftir breytingarnar munu stöðugildi í starfsmannahaldi NFS verða u.þ.b. 55 en auk þess koma lausráðnir starfsmenn og verktakar að þessari starfsemi. 20 starfsmönnum er sagt upp störfum, þar af 7 frétta- og dagskrárgerðarmönnum.

Fréttastjóri NFS verður sem fyrr Sigmundur Ernir Rúnarsson og aðstoðarfréttastjórar verða Þór Jónsson sem mun einbeita sér sérstaklega að sjónvarpsfréttum Stöðvar 2 og Þórir Guðmundsson, sem mun stýra fréttaflutningi NFS á visir.is og Bylgjunni. Elín Sveinsdóttir verður framleiðslustjóri NFS. Sjónvarpsútsendingar NFS á sérstakri rás verða aflagðar en fréttir fluttar á hefðbundnum tímum og tíðnisviðum Bylgjunnar og Stöðvar 2 hér eftir sem hingað til.

Með framangreindum breytingum leggur 365 grunn að kröftugri sókn inn á fréttaflutning á Netinu. Staða félagsins er sterk á dagblaðasviðinu, þar sem Fréttablaðið er í broddi fylkingar, sjónvarpi þar sem Stöð 2 er flaggskip einkarekins sjónvarpsreksturs í landinu og í hljóðvarpi með Bylgjuna í aðalhlutverki. Margir sterkir ljósvaka- og prentmiðlar starfa við hlið þessara þriggja burðarása og hafa sumir þeirra yfirburðastöðu á sínu sviði. Talsvert vantar hins vegar upp á að visir.is hafi sambærilegt forskot í netfréttum og mun NFS leggja mikla áherslu á sterkari samkeppnisstöðu á því sviði og í annarri nýmiðlun eins og fréttaþjónustu í síma, í náinni framtíð.

Ari Edwald, forstjóri 365 ehf. í tilkynningunni.:
?NFS hefur alla burði til þess að taka sér sterka og metnaðarfulla stöðu á íslenskum fréttamarkaði til langrar framtíðar. Innan vébanda fréttastofunnar er einvalalið góðra fagmanna sem ég er sannfærður um að eigi eftir að skila frábæru verki hér eftir sem hingað til. Þeim breytingum sem nú eru gerðar er ætlað að efla sóknarfæri NFS til mikilla muna á næstu misserum og mæta um leið þeim fjárhagslegu kröfum sem gera þarf í einkarekstri. Það er eftirsjá af öllu því góða fólki sem nú lætur af störfum en óhjákvæmilegt var að stokka spilin upp og blása til nýrrar sóknar á breyttum forsendum.?