Gengi hlutabréfa í Sjóvá hefur hækkað um 4,62% í Kauphöllinni það sem af er degi í 104 milljóna króna veltu. Bréf félagsins hafa nær stöðugt hækkað í verði frá því að það birti ársuppgjör sitt í síðustu viku, en þar kom meðal annars fram að félagið hefði hagnast um 1.029 milljónir króna á árinu.

Fyrir birtingu uppgjörsins stóð gengi bréfanna í 12,2 en í augnablikinu stendur verð á hvern hlut í 13,5 krónum. Jafngildir það tæplega 11% hækkun á tæpri viku og hefur verðið ekki verið jafnhátt síðan í apríl á síðasta ári.

Þá hefur gengi bréfa N1 hækkað um 2,74% það sem af er degi í 143 milljóna króna veltu. Félagið birti einnig ársuppgjör sitt í síðustu viku þar sem fram kom að félagið hefði hagnast um 1,6 milljarða króna á síðasta ári. Gengi bréfanna hefur aldrei verið hærra.