Samtök atvinnulífsins gera alvarlegar athugasemdir við fjölmörg atriði stjórnarfrumvarps til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samtök atvinnulífsins taka hins vegar skýrt fram að þau eru sammála því markmiði frumvarpsins að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna.

Samstaða er um það í atvinnulífinu að vinna skuli gegn kynbundinni mismunun. Samtökin eru hins vegar ósammála þeim aðferðum sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu og birtast í afar íþyngjandi kröfum um skýrslugerð, rökstuðning ráðninga og afhendingu gagna auk viðurlaga í formi dagsekta. Áhersla er þannig lögð á eftirlit og þvingunaraðgerðir frekar en samstarf, leiðbeiningar og hvatningu sem samtökin telja vænlegri leið til árangurs eins og segir á heimasíðunni.

Þvingandi áhrif á vinnumarkað

Samkvæmt því sem segir á heimasíðunni telja Samtök atvinnulífsins mörg ákvæði frumvarpsins til þess fallin að auka réttaróvissu, draga úr sveigjanleika í atvinnulífi og möguleikum fyrirtækja á að tryggja hagsmuni sína við ráðningar, launasetningu og uppsagnir starfsmanna. Allt leiði þetta til verulega aukinnar umsýslu og kostnaðar fyrir fyrirtækin án sýnilegs ávinnings. Framkvæmdin muni auk þess verða minni fyrirtækjum afar erfið.

SA telja reglur og þvingunaraðgerðir frumvarpsins ganga jafnvel lengra en leiðir af jafnréttissjónarmiðum. Til dæmis ákvæði frumvarpsins um að umsækjandi um starf geti krafist rökstuðnings atvinnurekanda fyrir ráðningu annars umsækjanda af gagnstæðu kyni. Reglur af þessu tagi gilda ekki um ráðningar á almennum vinnumarkaði. Atvinnurekendum er heldur ekki skylt að auglýsa störf enda óbundnir af stjórnsýslurétti og öðrum kvöðum sem gilda um opinberar stofnanir.

Hér er því um verulega breytingu að ræða sem gengur þvert á allar venjur og framkvæmd á almennum vinnumarkaði. Að auki er kveðið á um það í frumvarpinu að í rökstuðningi skuli telja upp hver hafi verið menntun þess sem var ráðinn, starfsreynsla, sérþekking eða aðrir sérstakir hæfileikar sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.

Hvorki lög né reglugerðir gilda almennt um ráðningar á almennum vinnumarkaði. Ákvæðið tekur því alfarið mið af reglum um opinbera starfsmenn en ekki aðstæðum á almennum vinnumarkaði þar sem ráðningar eru almennt ekki eins formbundnar. SA leggjast alfarið gegn því að ósveigjanlegum reglum hins opinbera sé með þessum hætti lætt inn í vinnurétt á almennum vinnumarkaði, sveigjanleiki hans takmarkaður og samkeppnishæfni atvinnulífsins þar með sköðuð. Það leiðir heldur ekki til annars en auglýsingum um störf mun fækka.

Ákvæði frumvarpsins þrengja líka möguleika fyrirtækja til að leggja þá þætti sem þau telja mikilvæga fyrir starfsemina til grundvallar við ráðningar starfsmanna án tillits til þess hvort þeir fela í sér kynbundna mismunun.

Lesa má gangrýnina í heild á heimasíðu Samtaka Atvinnulífsins: www.sa.is/frettir/almennar/nr/3976/