Iceland Express kynnti í dag nýja sumaráætlun sína fyrir næsta sumar. Áfangastöðum félagins verður fækkað um sex en um leið verður aukin tíðni til þeirra staða sem þegar eru í áætlunarkerfi félagsins.

Nýir áfangastaðir verða þó Osló í Noregi og Frankfurt-Main í Þýskalandi en þá vekur athygli að félagið ætlar einnig að fljúga til Boston í Bandaríkjunum. Sem kunnugt er flaug Iceland Express til Bandaríkjanna árin 2010 og 2011 með því sem veður að segjast slökum árangri enda hætti félagið að fljúga þangað í fyrra.

VB Sjónvarp ræddi í dag við Skarphéðin Berg Steinarsson, forstjóra Iceland Express, sem segir innviði félagsins breytta og því treysti félagið sér til að fara út í það mikla verkefni sem flug til Ameríku er.

Til gamans má geta þess að Iceland Express notar í vetur tvær Airbus A320 vélar sem er í eigu tékkneska flugfélagsins Czech Airlines en félagið mun nota þrjár vélar næsta sumar.