Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram 13 tillögur í efnahagsmálum sem eiga að stuðla að endurreisn atvinnulífsins. Tillögurnar hafa m.a. verið gefnar út í formi dreifirits undir yfirskriftinni Framtíðin. Á meðal þess sem flokkurinn leggur til er að allar skattahækkanir sem gerðar hafa verið frá hruni verði dregnar til baka, lokið verði við fjárhagslega endurskipulagningu heimilanna, öllum lánþegum Íbúðalánasjóðs verði heimilað að breyta verðtryggðum lánum í óverðtryggð lán með föstum vöxtum til fimm ára, lánþegum verði heimilt að skila lyklum að lánum og að allar eftirstandandi kröfur falli þá niður, stimpilgjöld verði afnumin og ekki verði hægt að innheimta tekjuskatta af afskriftum lána,

Ennfremur leggur flokkurinn til að framkvæmd laga um endurreikning gengistryggðra lána verði endurskoðuð, fólki verði gert auðveldara að kaupa sína fyrstu íbúð, tollar og vörugjöld af nauðsynjavörum verði lækkuð og að virðisauki af barnavörum verði færður í lægra skattþrepið.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir í blaðinu Framtíðin að þetta séu ítarlegustu efnahagstillögur sem lagðar hafi verið fram á Alþingi um langt skeið og að þær myndi grundvöll langs hagvaxtarskeiðs ef haldið verði rétt á spöðunum.