Hæstiréttur vísaði í dag frá dómi kæru ríkisins á hendur Jóni Ólafssyni, Hreggvið Jónssyni og Ragnari Birgissyni þar sem ákæruvaldið hafði ekki greint Hæstarétti frá dómkröfum ákæruvaldsins auk þess sem ekki var tilgreint í hvaða skyni var kært.

Forsaga málsins er sú að Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi þann 17. desember en sakborningarnir voru ákærðir fyrir skattsvik í tengslum við rekstur Norðurljósa og annarra félaga.

Ríkissaksóknari kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem vísaði málinu frá í dag.

Í úrskurði Hæstaréttar kemur fram gagnrýni á handhafa ákæruvaldsins og hann minntur á að full tilefni hafi verið til að hann fylgdi einföldum en nauðsynlegum formkröfum laga með því að taka fram í hvaða skyni væri kært og hvaða kröfur gerðar.

„Að þessu öllu gættu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá Hæstarétti,“ segir í úrskurði Hæstaréttar.

Þá mun allur kærumálskostnaður greiðast úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun hæstaréttarlögmannanna Ragnars Aðalsteinssonar, Ragnars Halldórs Hall og Kristins Bjarnasonar og er það um að ræða 311.250 krónur í hlut hvers.

Hér má lesa dóminn í heild sinni.