Kerfisbreyting í skattlagningu ökutækja var samþykkt á Alþingi á laugardaginn. Markmiðið er sagt vera að hrinda í framkvæmd áformum stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá vegasamgöngum að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga á vettvangi Evrópusambandsins.  Hefur það valdið fjaðrafoki innan bílgreina- og ferðaþjónstufyrirtækja. Þó að ásetningurinn þyki góður óttast menn að áhrifin verði mjög neikvæð fyrir atvinnulífið

Breytingarnar eiga að mati fjármálaráðuneytisins að auka tekjur af bifreiðagjaldi um 200 milljónir króna milli ára  samkvæmt forsendum fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins kusu gegn framvarpinu.

Aukin skattlagning

„Þessi nýja tafla er þannig að allflestir jepplingar hækka verulega í verði. Þetta eru einmitt þeir bílar sem fjöldinn kaupir. Það er því auka skattlagning á almenning. Þeir bílar sem við köllum venjulega jeppa eins og Land Cruiser, Pajero og fleiri verða vart kaupanlegir ef frumvarpið fer óbreytt í gegn," sagði Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, í Viðskiptablaðinu fyrir helgi.

Land Cruiser hækkar um 6-800 þúsund

Stórir hefðbundnir jeppar sem munu hækka talsvert í verði samkvæmt lagafrumvarpinu eru síður en svo ókeypis í dag. Þannig kostar sjálfskiptur Land Cruiser 150 GX um 9,6 milljónir króna og Land Cruiser 150 VX kostar tæpar 11,4 milljónir króna. Báðir þessar gerðir eru með samskonar vélar og að sögn sölumanns hjá Toyota-umboðinu munu þeir hækka um 600.000 til 800.000 krónur verði frumvarpið samþykkt.

Hann sagði að mikill áhugi væri á að kaupa bíla áður en fyrirhuguð hækkun skellur á. Þannig væri hægt að selja um 20 til 30 bíla af 150 gerðunum af Land Cruiser nú þegar ef þeir væru til. Næsta sending kemur hins vegar ekki fyrr en í lok febrúar 2011 og verður þá væntanlega á hærra verði.