Viðskiptaráð telur mikilvægt að samræma skattalega hvata við grannríkin til þess að standast betur samkeppni um sérhæft erlent vinnuafl. Á öðrum Norðurlöndum njóti erlendir sérfræðingar hagstæðari skattakjara en innlendir aðilar en hér á landi séu engir skattalegir hvatar til staðar fyrir erlenda sérfræðinga.

Í nýrri skoðun Viðskiptaráðs er fjallað um mikilvægi þess að bæta umhverfi erlendra sérfræðinga á Íslandi. Eitt af því sem Viðskiptaráð telur nauðsynlegt er að taka upp skattalega hvata fyrir erlenda sérfræðinga, líkt og tíðkast í ríkjunum í kringum okkur.

Ástæður þess að ríki veita erlendum sérfræðingum tímabundið skattahagræði eru margvíslegar, samkvæmt Viðskiptaráði. Í fyrsta lagi gegni erlendir sérfræðingar oft mikilvægu hlutverki við tímabundna uppbyggingu erlendra fjárfestingaverkefna. Í öðru lagi nýti erlendir sérfræðingar, sem flytjast tímabundið til landsins, ekki sömu opinberu þjónustu til jafns við innlenda aðila. Í þriðja lagi hafi rannsóknir sýnt að innstreymi sérfræðinga hafi jákvæð áhrif á uppbyggingu þekkingar, þekkingar sem færist til innlendra starfsmanna og eykur þannig framleiðni fyrirtækisins.

Viðskiptaráð bendir á að ef skattalegir hvatar nágrannaríkja okkar eru teknir með í reikninginn þá sé skattbyrði erlendra sérfræðinga hæst allra á Íslandi.