Breytingar sem gerðar hafa verið á virðisaukaskattskyldu ferðaþjónustufyrirtækja mun í sumum tilvikum skila því að viðkomandi fyrirtæki fái meira úr ríkissjóði en þau inna af hendi í formi virðisaukaskatts. Þetta segir Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, í samtali við Morgunblaðið .

Nýlega voru gerðar breytingar á virðisaukaskattskerfinu í þá veru að neðra þrepið hækkaði úr 7% í 11% og efra þrepið lækkaði úr 25,5% í 24%. Um næstu áramót mun svo ýmis konar ferðaþjónusta, sem til þessa hefur verið undanþegin virðisaukaskatti, færast í neðra þrep kerfisins.

„Þeir aðilar sem selja út þjónustu sem ber 11% virðisaukaskatt en greiða 24% virðisauka af aðföngum sínum eru í raun og veru að fá dálítinn ríkisstyrk,“ segir Vala í samtali við Morgunblaðið. Hún segir að þeir aðilar í ferðaþjónustu sem hingað til hafi ekki þurft að standa skil á útskatti sem tengist rekstrinum hafi ekki getað talið neitt á móti, en hér eftir muni þeir fá greitt úr ríkissjóði.