Skatthlutfall hækkaði um 0,7% hér á milli ára og var 36% á síðasta ári. Til samanburðar var hlutfallið að meðaltali 35,1% innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Á sama tíma var skatthlutfallið talsvert hærra á hinum Norðurlöndunum. Hæst var það 48,1% í Danmörku en lægst í Noregi, 43,2%.

Fram kemur í vefriti fjármála- og efnahagsráðuneytisins um skatthlutfall innan OECD-ríkjanna að í fyrra hækkaði hlutfallið í 20 löndum en lækkaði eða hélst óbreytt í 9 löndum. Að meðaltali hækkaði hlutfallið um 0,2 prósentustig á milli ára og nam 35,1%.

Skatthlutfallið hækkaði á milli ára á öllum Norðurlöndunum nema í Svíþjóð þar sem það lækkaði um 1%. Skatthlutfallið á Íslandi er 7,0 prósentustigum undir meðaltali hinna Norðurlandanna og 2,7 prósentustigum undir meðaltali ríkja Evrópusambandsins.

Tekið er fram í vefritinu að einfaldur samanburður á skatthlutfallinu einu og sér geti verið varhugaverður þar sem mismunandi fyrirkomulag skatta, bóta og lífeyrismála geti gert hann ónákvæman. Auk þess er ekki tekið tillit til þátta á borð við umfang og gæði þeirrar opinberrar þjónustu sem skatttekjur hins opinbera eru m.a. notaðar til að fjármagna.

Í ríkjum OECD hækkaði meðalskattbyrði mismunandi launþegahópa í 26 af 34 löndum árið 2011. Þar af hækkaði skattbyrðin einna mest í Lúxemborg, Portúgal og Slóvakíu á meðan hún lækkaði í Bandaríkjunum og Nýja Sjálandi. Á Íslandi hækkaði skattbyrði allra hópa á milli ára (að teknu tilliti til barnabóta) en þó ívið minna hjá einhleypum en hjónum.