Evran hækkaði nokkuð í morgun eftir að framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, sagði að ferlinu við að skapa varanlegan björgunarsjóð yrði að flýta. Sjóðurinn að á vera kominn á laggirnar um mitt ár 2013 og á að hafa yfir að ráða um 500 milljörðum evra. Greining Íslandsbanka fjallar í dag um ræðu Barroso sem hann hélt á þingi ESB í Strassborg í Frakklandi í dag.

Um björgunarsjóðinn sagði hann að reglunni þyrfti að breyta sem heimilar litlum ríkja innan svæðisins að tefja ákvörðunarferilinn og að þess í stað ætti meirihlutasamþykki að duga. Þar er hann að reyna að taka á einum af þeim áttum sem veikt hafa viðbrögð ríkjasamstarfsins við hinni alvarlegu skuldakrísu, segir greining.

Barroso kallaði einnig eftir skatti á fjármagnsflutninga sem gæti skapað 55 milljarða evra árlega. Sagði hann að það væri það sem bankarnir þyrftu að greiða fyrir stuðning sem bankarnir hafa fengið frá því að fjármálakrísan hófst 2008 en sá stuðningur er metinn á yfir 4.000 milljarða evra.

Ummælin náðu að snúa við lækkun sem var strax í upphafi dags á evrópskum hlutabréfum. Lækkun þeirri var hrundið af stað af skýrslu Financial Times sem sagði að sumir meðlimir evrusvæðisins vildu að einkaaðilar sem væru lánveitendur gríska ríkisins tækju á sig stærra tap af grískum ríkisskuldabréfum en ráðgert er í núverandi björgunarpakka en þar er gert ráð fyrir að skuldir gríska ríkisins verði færðar niður um 20%. Auk þessa litaði það evrópska hlutabréfamarkaði í morgunsárið að vogunarsjóðurinn Man Group sagði að þeir þyrftu að færa niður eignir. Lækkuðu hlutabréf í félaginu um 15% í morgun.