Bandarísk skattayfirvöld halda því fram að risafyrirtækið Coca-Cola skuldi 3,3 milljarða dollara, eða um 400 milljarða króna, í skatta.

Coke skilaði inn skýrslu til bandaríska fjármálaeftirlitsins (SEC) á föstudag og greindi frá því að skatturinn vildi fá 3,3 milljarða dollara auk vaxta eftir að hafa eytt fimm árum í að fara yfir bókhald fyrirtækisins frá árunum 2007 til 2009.

Þess má geta að árið 2014 borgaði Coke alls 2,2 milljarða dollara í skatta og hagnaður fyrirtækisins var 7,1 milljarður dollara. Skattyfirvöld eru hins vegar á því að Coke eigi að skilgreina ákveðnar tekjur sem svo að þær séu fengnar frá Bandaríkjunum en ekki erlendis frá. Þess vegna skuli fyrirtækið borga.

Coke er þessu ósammála og má búast við því að málið fari fyrir dómstóla. Þá vill Coke einnig meina að skatturinn hafi aldrei varað sig við eða tilkynnt sér um málið.