Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur heimilað 31 milljarðs króna kaup Síldarvinnslunnar (SVN) á útgerðarfélaginu Vísi í Grindavík. Eftirlitið tekur þó fram að með ákvörðuninni sé ekki tekin endanleg ákvörðun um yfirráð yfir Síldarvinnslunni í skilningi samkeppnislaga. „Kunna málefni þessi því að koma til frekari rannsóknar á síðari stigum,“ segir í tilkynningu á vef SKE.

„Það er niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki séu forsendur til íhlutunar, hvort sem litið er til hinna þrengri eða víðtækari yfirráða. Þannig eru ekki forsendur til þess að ætla að markaðsráðandi staða sé að myndast eða styrkjast, auk þess sem breyting á samþjöppun vegna kaupa á Vísi er undir þeim viðmiðum sem stuðst er við í evrópskum samkeppnisrétti. Þá gefa fyrirliggjandi gögn ekki til kynna að samkeppni raskist að öðru leyti.“

Tilkynnt var um kaupin þann 10. júlí síðastliðinn. Kaupverð hlutafjár nemur um 2 milljörðum króna en vaxtaberandi skuldir Vísis um 11. milljörðum. Síldarvinnslan greiðir fyrir hlutinn með reiðufé vegna 30% kaupverðs og með hlutabréfum í SVN vegna 70% kaupverðsins.

Ræða tengsl SVN, Samherja og Gjögurs

SKE bendir sérstaklega á að Í fyrri ákvörðunum eftirlitsins er varða Síldarvinnsluna hafi það aflað upplýsinga og sjónarmiða um tengsl Síldarvinnslunnar við Samherja annars vegar og systurfélaganna Gjögurs og Kjálkaness hins vegar.

„Hafa rannsóknir leitt í ljós talsverð stjórnunar-, eigna- og viðskiptatengsl milli framangreindra aðila sem fela í sér vísbendingar um að stofnast hafi til yfirráða í Síldarvinnslunni umfram það sem áður hefur verið greint frá í tilkynningum um samruna.“

Samkeppniseftirlitið segir upplýsingar sem liggja fyrir í þessu máli áfram gefa til kynna eigna-, stjórnunar- og viðskiptatengsl milli Síldarvinnslunnar, Samherja og Gjögur/Kjálkanes. Af þeim sökum hafi samruninn verið tekin til athugunar á breiðari grunni. Líkt og fyrr segir var niðurstaða eftirlitsins þó að ekki séu forsendur til íhlutunar.