Síldarvinnslan (SVN) hefur náð samkomulagi um kaup á öllu hlutafé útgerðarfélagsins Vísis í Grindavík. Kaupin eru háð fullnægjandi niðurstöðu áreiðanleikakönnunar ásamt samþykki hluthafafundar SVN og Samkeppniseftirlitsins.

Í tilkynningu SVN til Kauphallarinnar kemur fram að viðskiptin nemi um 31 milljarði króna. Kaupverð hlutafjár er 20 milljarðar en vaxtaberandi skuldir Vísis nema um 11 milljörðum. Stjórn SVN mun kalla til hluthafafundar til að óska eftir heimild til að auka hlutafé og að hluthafar falli frá áskriftarrétti sínum.

Greitt er fyrir hlutinn með bréfum í Síldarvinnslunni og reiðufé. Þannig er greitt með reiðufé vegna 30% kaupverðs og með hlutabréfum í Síldarvinnslunni hf. vegna 70%. Miðað er við meðaltalsgengi síðustu fjögurra vikna sem er 95,93. „Með þessum viðskiptum verða seljendur meðal kjölfestufjárfesta í Síldarvinnslunni.“

Sjá einnig: SVN kaupir í Arctic Fish fyrir 15 milljarða

„Seljendur og kaupendur eru sammála um að með þessum viðskiptum sé verið að styrkja stöðu beggja félaga til framtíðar. Vísir hf. verður rekið sem dótturfélag og mun starfsemin í Grindavík verða öflugri og framsæknari og ýta undir samkeppnishæfni og sjálfbærni til lengri tíma í sátt við umhverfið. Þá mun alþjóðlegt sölu- og markaðsstarf félaganna eflast. Markmið Síldarvinnslunnar hf. er nú sem endranær að hámarka verðmæti og mun þekking og reynsla starfsfólks og stjórnenda Vísis hf. stuðla að því,“ segir í tilkynningunni.

Vísir gerir út fjögur skip í aflamarkskerfinu og tvo báta í krókaaflamarki. Félagið rekur einnig saltfiskvinnslu og hátækni bolfiskvinnslu í Grindavík, auk þess að eiga erlend dótturfélög. Á fiskveiðiárinu 2022-2023 eru væntar aflaheimildir félagsins um 15 þúsund þorskígildistonn. Ársverk á síðasta ári voru um 250. Ársveltan var rúmlega 10 milljarðar króna og hagnaður ársins liðlega 800 milljónir króna.

Fram kemur að höfuðstöðvar bolfiskvinnslu hjá Síldarvinnslunni verða hjá Vísi í Grindavík. Pétur Hafsteinn Pálsson mun áfram gegna stöðu framkvæmdastjóra Vísis. Pétur er stærsti hluthafi Vísis með 20% en félagið er í eigu fjölskyldu hans.

Síldarvinnslan segir að verði af viðskiptunum er útlit fyrir að núverandi fiskveiðiheimildir félagsins verði lítillega yfir gildandi viðmiðunarmörkum. Komi til þess hefur félagið sex mánuði til að laga sig að þessum viðmiðum. Veiðiheimildir í uppsjávartegundum, einkum loðnu, eru breytilegar milli ára og hafi því óhjákvæmilega áhrif á kvótaþak frá ári til árs.

Gunnþór Ingvason forstjóri Síldarvinnslunnar:

„Kaupandi og seljendur eru sammála um að með þessum viðskiptum er verið að styrkja bæði félögin til framtíðar. Starfsemin verður öflugri og tryggir samkeppnishæfni til lengri tíma litið. Höfuðstöðvar bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar hf. verða hjá Vísi hf. í Grindavík, enda þar starfrækt hátæknivinnsla og mikil þekking og mannauður til staðar. Við sjáum fyrir okkur mikil tækifæri á vinnslu sjávarafurða í Grindavík, meðal annars vegna aukins fiskeldis á svæðinu á komandi árum. Ég tel að þessi viðskipti séu til mikilla hagsbóta fyrir alla aðila enda er sjávarútvegurinn alþjóðleg atvinnugrein sem þarf að standast harða samkeppni. Til lengri tíma litið ættu viðskiptin því að efla samkeppnisstöðu sjávarútvegs og þjónustu í Grindavík.“

Pétur Hafsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Vísis:

„Við, eigendur Vísis hf. færum með þessu móti hlutabréf okkar yfir í annað sjávarútvegsfélag sem er á almennum hlutabréfamarkaði og verðum með því meðal annara kjölfestufjárfesta í öflugu sjávarútvegsfélagi. Við erum þess fullviss að forsendur þess að byggja upp bolfiskvinnsluna í Grindavík eru réttar og munu standast tímans tönn. Þegar við bætast svo allir möguleikarnir sem tengjast laxeldinu getum við ekki annað en verið bjartsýn og þakklát fyrir að vera þátttakendur í þessari vegferð og þeirri framtíðarsýn sem hér er lögð til grundvallar í okkar heimabyggð. Við erum einnig stolt af starfsfólki Vísis sem fær með þessu enn frekari tækifæri til þess að takast á við þessa öflugu atvinnusköpun í Grindavík. Þessi atriði gera þessa stóru ákvörðun okkar léttari.“

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)