Samkeppniseftirlitið hefur hafnað því að Sigurður Elías Guðmundsson, hóteleigandi og verslunarmaður í Vík í Mýrdal, fái að kaupa verslunina Kjarval, sem staðsett er á Hellu, af Festi.

Morgunblaðið greinir frá þessu , en í frétt blaðsins segir að mati eftirlitsins hafi kaupandinn ekki nægilega fjárhagslegan styrk. Þá sé hann háður og tengdur Festi sökum þess að hann hafi lengi verið umboðsmaður N1 í Vík.

Sjá einnig: Hafa náð samningum um sölu á Hellu

„Þessi niðurstaða er okkur mikil vonbrigði þar sem við vildum klára sölu á verslun Kjarvals á Hellu samkvæmt skilyrðum sáttar sem á sínum tíma var gerð. Við áttum okkur hreint út sagt ekki á niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins þar sem kaupandinn hefur þekkingu og fjárhagslega getu til að reka þarna verslun áfram í núverandi mynd," er haft eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra Festar, í Morgunblaðinu.

Sala Festi á Kjarval er eitt af skilyrðum sáttar sem félagið gerði við Samkeppniseftirlitið er N1 og Festi sameinuðust árið 2018.