*

föstudagur, 28. janúar 2022
Innlent 28. maí 2020 17:24

SKE sektar Símann vegna Enska boltans

Síminn hefur verið sektaður um 500 milljónir króna af Samkeppniseftirlitinu vegna verðlagningar við sölu á Enska boltanum.

Ritstjórn
Orri Hauksson, forstjóri Símans.
Haraldur Guðjónsson

Samkeppniseftirlitið (SKE) hefur sektað Símann um hálfan milljarð króna vegna ólíkra viðskiptakjara við sölu á Enska boltanum á Símanum Sport. 

Samkvæmt úrskurði SKE var mikill verðmunur og ólík viðskiptakjör við sölu á enska boltunum eftir því hvort hann var boðinn í gegnum Heimilispakka Símans eða einn og sér í stakri áskrift. Eftirlitið telur þetta hafa brotið gegn skilyrðum sem hvíla á fyrirtækinu. 

Nánar kemur fram að skilyrðunum sem Síminn braut er ætlað að vinna gegn því að Síminn geti, í ljósi sterkrar stöðu sinnar á mikilvægum mörkuðum fjarskipta, nýtt hið breiða þjónustuframboð sitt til þess að draga að sér og halda viðskiptum á þann hátt að keppinautar þeirra geti ekki boðið samkeppnishæft verð eða þjónustu. Er skilyrðunum ætlað að koma í veg fyrir að Síminn geti með þessum hætti takmarkað samkeppni almenningi til tjóns.

Samkeppniseftirlitið telur að framangreind brot séu alvarleg og til þess fallin að skaða hagsmuni almennings til lengri tíma, á mörkuðum sem skipta neytendur og efnahagslífið miklu máli. SKE sagði það vera óhjákvæmilegt að leggja sektir á Símann vegna brotanna. Eftirlitið telur það vera áhyggjuefni að Síminn hafi á ný gerst brotlegur með alvarlegum hætti.

Málið hófst eftir kvörtun frá Sýn vorið 2019. Í kvörtuninni var því haldið fram að kynning, verðlagning og skilmálar á fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu Símans, einkum Enska boltanum, hafi falið í sér mjög alvarlegar samkeppnishömlur.

Þannig var verð fyrir Símann Sport/Enska boltann aðeins 1.000 kr. á mánuði þegar þjónustan var seld sem hluti af Heimilispakkanum og Sjónvarpi Símans Premium, en 4.500 kr. þegar hún var seld án þess að önnur þjónusta væri keypt samhliða.

Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að þorri viðskiptavina Símans, þ.e. nærri því 99% þeirra sem kaupa Enska boltann/Símann Sport á kerfum fyrirtækisins, keyptu sjónvarpsefnið í heildarþjónustu, þ.e. með Heimilispakkanum og/eða Sjónvarpi Símans Premium í stað þess að kaupa þjónustuna eina og sér.