Af 22 skráðum félögum voru átta græn eftir viðskipti dagsins en sjö voru rauð. Heildarvelta á markaði nam 4,4 milljörðum króna og hækkaði Úrvalsvísitalan um 0,21%.

Mest viðskipti voru með bréf Marels en þau námu 692 milljónum króna. Gengið hækkaði um 0,32% í viðskiptum dagsins en það hefur hækkað um 6% á síðastliðnum mánuði.

Bréf Skels hækkuðu mest í dag eða um 5,7% í 30 milljóna króna viðskiptum. Þá stendur gengið í 16,7 krónum á hlut og hefur það hækkað um sama hlutfall á síðastliðnum mánuði. Þar á eftir hækkuðu bréf VÍS næst mest í dag eða um 1,7% í 481 milljóna króna viðskiptum. Gengið stendur nú í 17,9 krónum á hlut og hefur hækkað um 5,92% á síðastliðnum mánuði.

Mesta lækkun dagsins var hjá bréfum Sýnar en hún nam 1,67% í 27 milljóna króna viðskiptum. Gengið hefur lækkað um 14,56% á síðastliðnum mánuði og stendur nú í 59 krónum á hlut. Þá lækkuðu bréf Nova næst mest í dag eða um 0,86% en þau hafa lækkað um 0,86% frá fyrstu viðskiptum.