*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Innlent 8. nóvember 2004 11:35

Skeljungur iðrast og biðst afsökunar

segir samráð tilheyra fortíðinni

Ritstjórn

Öll stóru olíufélögin hafa nú beðist afsökunar á þætti þeirra í samráðsmálinu. Forstjóri Skeljungs, Gunnar Karl Guðmundsson, hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: "Í þeirri hörðu umræðu sem nú fer fram um úrskurð Samkeppnisráðs um ólögmætt samráð olíufélaganna ber að undirstrika að þeir starfshættir sem gagnrýndir eru í skýrslunni heyra sögunni til og harmar félagið þátt Skeljungs í þeim. Skeljungur hf. starfar í dag í gjörbreyttu umhverfi og eru nýir eigendur komnir að félaginu sem á engan hátt tengjast málinu.

Viðskiptavinir félagsins eru beðnir afsökunar á því sem miður fór á þessum árum og að nöfn sumra þeirra hafa að ósekju dregist inn í umræðuna. Starfsfólk félagsins biðjum við einnig afsökunar á þeim óþægindum sem það hefur orðið fyrir síðustu vikur vegna þessa máls um leið og við þökkum góða frammistöðu og samstöðu þess á erfiðum tímum.

Skeljungur hf. leggur áherslu á heiðarlega og opna samkeppni þar sem virðing er borin fyrir hagsmunum viðskiptavina og annarra samstarfsaðila félagsins. Við ætlum okkur að vinna það traust á ný sem glatast hefur," segir Gunnar ennfremur í yfirlýsingunni.