*

miðvikudagur, 27. október 2021
Viðtal, Innlent 17. september 2019 14:43

Skeljungur kaupir Basko

Kaupverð er 30 milljónir króna auk yfirtöku á skuldum. Kaupin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Ritstjórn
Árni Pétur telur sóknartækifæri felast í kaupunum á Basko.
Aðsend mynd

Skeljungur hf. hefur gert samkomulag um að kaupa allt hlutafé í Basko ehf. Kaupverð er 30 milljónir króna auk yfirtöku á 300 milljóna skuldum. Kaupin eru háð ýmsum fyrirvörum, meðal annars samþykki Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skeljungi til Kauphallarinnar.

Basko á og rekur fimm 10-11 verslanir og fjórtán verslanir undir merkjum Kvikk sem reknar eru við eldsneytisverslanir Skeljungs. Þá fylgja með í kaupunum veitingastaðurinn Bad Boys Burgers & Grill, verslunin Kvosin og matvöruverslanir í Reykjanesbæ og á Akureyri. 50% hlutur Basko í Eldum rétt ehf. fylgir ekki með en Basko er í meirihlutaeigu sjóðsins Horn III slhf.

Í tilkynningunni segir að kaupverðið sé 30 milljónir króna en yfirteknar nettó vaxtaberandi skuldir eru um 300 milljónir. Forsendur kaupverðsins byggja á upplýsingum frá seljanda.

„Ráðgert er að heildareignir Basko eftir fjárhagslega endurskipulagningu nemi 1.000-1.100 m.kr. Ráðgert er að vörusala yfirtekins rekstrar á yfirstandandi rekstarári nemi 5.000-5.200 m.kr. Áhrif kaupanna á EBITDA afkomu Skeljungs á þessu ári eru metin óveruleg og ekki til þess fallin að breyta áður útgefinni EBITDA spá. Eftir að rekstrarlegri endurskipulagningu á Basko lýkur er reiknað með að reksturinn muni hafa jákvæð áhrif á EBITDA afkomu Skeljungs sem nemur 100-200 m.kr. á ársgrundvelli,“ segir í tilkynningunni.

„Með þessum kaupum erum við að bæta þjónustu við viðskiptavini Orkunnar með því að samtvinna rekstur Kvikk og Orkunnar með meira afgerandi hætti en áður. Basko hefur í gegnum góðar staðsetningar á verslunum sínum mjög sterka stöðu, til að mynda í sölu til ferðamanna. Innan félagsins er mikil þekking á rekstri þægindaverslana sem mun nýtast okkur. Með kaupum þessum stígur Skeljungur ákveðnara skref í smásölurekstri en áður hefur verið gert og horfir til enn frekari uppbyggingar á því sviði,“ er haft eftir Árna Pétri Jónssyni, forstjóra Skeljungs, í tilkynningunni.