*

mánudagur, 8. mars 2021
Innlent 23. febrúar 2021 16:12

Skeljungur leiðir lækkanir dagsins

Icelandair hækkaði um 2,7% í viðskiptum dagsins en gengi flugfélagsins hefur þó lækkað um 7,3% frá ársbyrjun.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,1% í 2,1 milljarðs króna veltu Kauphallarinnar í dag og stendur nú í 2.961 punktum. Þrettán af nítján félögum Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins. 

Olíufélagið lækkaði mest allra félaga eða um 1,6% í 39 milljóna króna veltu. Gengi Skeljungs hefur þó hækkað um samtals 19,6% í ár þrátt fyrir lækkanir dagsins. 

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 1,2% í 846 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréf Marel lækkuðu einnig um 1,3% í 242 milljóna króna viðskiptum og standa nú í 913 krónum á hlut. 

Icelandair hækkaði mest félaga Kauphallarinnar í dag eða um 2,7%. Gengi flugfélagsins stendur nú í 1,52 krónum á hlut en það er um 7,3% lægra en í byrjun ársins. 

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin