Endanleg tollafgreiðsla bensíns leiddi í ljós að hækkun þann 29. maí sl. var ótímabær.  Í ljósi mistakanna verður bensínverð lækkað í dag hjá Skeljungi um 12,5 krónur. Bensínverð mun hækka síðar í mánuðinum þegar tollabreyting kemur til framkvæmda segir í tilkynningu félagsins.

Þar kemur einnig fram að Skeljungur hf. hefur fengið staðfest frá tollayfirvöldum að nýtilkomnar breytingar á tollum á bensíni muni aðeins eiga við um bensínbirgðir Skeljungs sem ekki voru komnar til landsins þann 29. maí sl. Síðustu bensínbirgðir félagsins komu til landsins 12. maí, en voru ekki tollafgreiddar endanlega fyrr en 5. júní. Því voru álagðir tollar lægri en reiknað hafði verið með.

Boða aftur hækkun

Í tilkynningu kemur fram að í ljósi þessa mun Skeljungur í dag lækka útsöluverð sitt á bensíni á öllum bensínstöðvum fyrirtækisins um 12,5 krónur.

Rétt er þó að taka fram að frá því að bensínverð hækkaði þann 29. maí hefur gengi íslensku krónunnar veikst og heimsmarkaðsverð á olíu hækkað umtalsvert. Það leiðir því til þess að Skeljungur mun þurfa að hækka útsöluverð sitt aftur síðar í vikunni, um krónutölu sem nemur nærri allri lækkuninni nú.

Þá er ljóst að síðar í mánuðinum mun útsöluverð á bensíni mun hækka um 12,5 krónur að óbreyttu, þegar umrædd tollabreyting kemur til framkvæmda á nýjar birgðir félagsins.

Í tilkynningu kemur fram að forsvarsmönnum Skeljungs þykir miður að komið hafi til ótímabærrar hækkunar á útsöluverði bensíns hjá fyrirtækinu. Mistökin má rekja til skjótra breytinga á tollaumhverfinu og óvissu um framkvæmd breytinganna hjá öllum málsaðilum. Leitað verður allra leiða til þess að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki segir í tilkynningu.