Þrjú skemmtiferðaskip sigla sem stendur hringinn í kringum Ísland. Þetta eru skipin Ocean Diamond, Sea Explorer og Sea Spirit. Skipin komu til Íslands síðari hluta maí og stefnt er að því að þau sigli nokkrum sinnum í kringum landið í sumar. Von er fleiri skemmtiferðaskipum í sömu erindagjörðum, m.a. hinu þekkta skipi National Geographic Explorer, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Við erum að sjá nýjar áherslur í komu skemmtiferðaskipa sem sigla nú í auknum mæli hringinn í kringum Ísland yfir sumartímann. Skipin hafa viðkomu á allmörgum stöðum á landinu auk Reykjavíkur og tekur hver ferð yfirleitt 10 daga. Það má segja að þetta sé nýjasti kaflinn í þróun skemmtiferðasiglinga hingað til lands,“ segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, en fyrirtækið sér um að þjónusta skipin á meðan dvöl þeirra stendur hér á landi.

Björn segir þetta mjög jákvætt fyrir efnahaginn, ekki síst á landsbyggðinni enda komi litlar hafnir meira og meira að siglingum sem þessum. „Þetta hefur í för með að minni byggðarlög á landsbyggðinni fá mun fleiri ferðamenn í heimsókn en ella,“ segir hann.

Stoppa daglega í nýrri höfn

Skipin stoppa daglega í nýrri höfn. Þau hafa viðkomu í Reykjavík, Grundarfirði, Stykkishólmi, Flatey, Ísafirði, Vigur, Grímsey, Siglufirði, Akureyri, Seyðisfirði, Eskifirði, Neskaupstað, Djúpivogi, Höfn og Vestmannaeyjum. Skipin sigla þó ekki á allar hafnir í hverri ferð en skipta nokkuð jafnt á milli staða. Þegar skipin koma aftur til Reykjavíkur skipta þau um farþega.

„Það er á margan hátt mjög þægilegt fyrir farþegana að búa á siglandi hóteli því þeir eru þá í sama herbergi allan tímann og þurfa ekki að pakka upp úr töskunum og í þær aftur á hverjum degi. Ferðamenn sem sigla með skipunum fara í náttúruskoðun sem og heimsækja bæina þar skipin hafa viðkomu og það sem þeir hafa upp á að bjóða m.a. söfn, verslun og veitingastaði. Þetta er viussulega mikil innspýting í verslun og þjónustu fyrir mörg minni byggðarlögin,” segir Björn ennfremur.