„Íslenski jarðvarmaklasinn vinnur að því með samstarfsaðilum í orku- og verkfræðifyrirtækjum að styrkja samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja í jarðvarmageiranum. Orkuklasi Íslands var svo stofnaður á þeim grunni því íslenskur orkuiðnaður er meira en bara jarðvarmi," segir Alexander Richter, sem ráðinn hefur verið framkvæmdastjóri Orkuklasans sem nær utan um jarðvarmaklasann.

„Mitt hlutverk verður að þróa áfram aðaláherslur klasans og víkka hlutverk hans út til alls orkuiðnaðarins. Klasinn styrkir ímynd Íslands og íslenskra fyrirtækja í orkuiðnaðinum og styður við frumkvöðlastarfsemi á Íslandi, ekki ósvipað og hefur tekist með nýsköpunarhraðlinum Startup Energy Reykjavík." Alexander er fæddur og uppalinn í Þýskalandi.

„Ég kynntist eiginkonu minni, Ástríði Jóhannesdóttur, sem er líka lögfræðingur og sviðstjóri hjá Þjóðskrá, í námi í Þýskalandi. Þegar ég flutti til Íslands árið 2000 var ekki auðvelt fyrir menntaða útlendinga að fá vinnu hér. Ég þurfti því svolítið að endurskilgreina sjálfan mig í starfi og hóf störf hjá Íslandsbanka árið 2005 þar sem ég fer fljótt inn í nýstofnaðan jarðhitahóp sem hélt áfram innan Glitnis," segir Alexander.

„Hópurinn vann með íslenskum fyrirtækjum og erlendum í jarðvarmageiranum við að fjármagna verkefni út og vinna út um allan heim og þannig að flytja þekkingu sína út. Við vorum mikið að vinna að því í Bandaríkjunum sem og skoða möguleika í Ástralíu, Þýskalandi og víðar til að mynda með félögum eins og Jarðborunum.

Við vorum mjög stolt af þessu starfi enda í raun fyrsti bankinn til að vinna á þessari sérstöku hillu, svo hrunið var töluvert áfall og eins og einhver hefði dregið gólfið undan fótum okkar, en þessu starfi var haldið áfram innan nýja Íslandsbanka og var ég með til 2011. Við höfðum tekið eftir því að það vantaði einhvers konar fjölmiðil sem einblíndi á jarðhitabransann og fór það svo að ég stofnaði fréttavefsíðuna ThinkGeoEnergy, sem óx úr því að vera hliðarverkefni í að verða leiðandi miðill í jarðhitageiranum. Síðar tók ég við framkvæmdastjórn kanadíska jarðhitafélagsins CanGea þar sem ég sit nú í stjórn."

Börn Alexanders og Ástríðar eru á aldrinum 9, 14 og 17 ára, og segir hann að ef þau væru spurð væri aðaláhugamál hans vinnan.

„Þess utan finnst mér gaman að því að hlaupa og hjóla, en við búum í Vesturbænum þar sem er virkilega gott að geta notið þess að hlaupa meðfram sjónum. Svo finnst mér gríðarlega gaman að fara á skíði, en það tók mig smá tíma að læra að njóta þess hér á landi eftir að hafa getað stundað skíðin í Ölpunum. Það var alltaf mikil freisting meðan maður var í námi í Suður-Þýskalandi og mun skemmtilegra en að sinna náminu."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .