Samkeppniseftirlitið og Skipti hafa gert heildarsátt um lok þeirra mála sem eftirlitið hefur haft til rannsóknar. Með sáttinni eru gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi og háttsemi samstæðu Skipt í því skyni að efla samkeppni og tryggt að keppinautar Símans sitji við sama borð og Síminn sjálfur varðandi aðgang að grunnfjarskiptakerfum Skipta. Skipti fallast einnig á að greiða 300 milljónir króna í stjórnvaldssekt. Í sáttinni felst að fallið er frá ágreiningi vegna nýlegra úrskurða áfrýjunarnefndar samkeppnismála. Í því felst að Skipti fella niður dómsmál og hefja ekki dómsmál vegna m.a. úrskurða áfrýjunarnefndar samkeppnismála í málum nr. 10/2011 og 1/2012. Í þeim málum var staðfest niðurstaða Samkeppniseftirlitsins um misnotkun Símans á markaðsráðandi stöðu.

Fram kemur í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu að það hafi haft til meðferðar ýmsar kærur frá keppinautum Símans þar sem því hefur verið haldið fram að Síminn hafi brotið gegn banni samkeppnislaga við misnotkun á markaðsráðandi stöðu.

Í sáttinni viðurkenna Skipti ekki brot á samkeppnislögum. Samkeppniseftirlitið telur hins vegar að Síminn hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Því sé nauðsynlegt að Skipti greiði sekt og grípi til ráðstafana til að efla samkeppni og vinna gegn frekari brotum.

Viðamikil breyting

Með sáttinni nú er er í fyrsta sinn gerður skýr og afgerandi aðskilnaður á milli annars vegar grunnkerfa samstæðunnar og þjónustu við fjarskiptafyrirtæki sem tengist þessum grunnkerfum, og hins vegar smásölustarfsemi Símans.

Sáttinni er ætlað að tryggja fullt jafnræði kaupenda að öllum heildsöluafurðum (grunnfjarskiptaþjónustu) sem Míla selur. Í þessu felst að keppinautar Símans skulu fá sama aðgang að þeim fjarskiptavirkjum og -þjónustu með sömu kjörum, skilmálum og gæðum og Síminn sjálfur nýtur á hverjum tíma. Hið sama tekur til jafnræðis í allri upplýsingagjöf.

Til að tryggja framangreint er mælt fyrir um sjálfstæði Mílu og felur sáttin í sér verulegan aðskilnað Mílu frá Símanum og öðrum fyrirtækjum innan Skiptasamstæðunnar. Í þessu skyni er m.a. mælt fyrir um að sjálfstæði Mílu verði tryggt með skýrum fyrirmælum um viðskiptastefnu og verksvið fyrirtækisins, óháðum stjórnarformanni og stjórnunarlegu sjálfstæði, aðgreindu húsnæði, trúnaðarskyldum og banni við samnýtingu á tilekinni þjónustu. T.d. mega Síminn og Míla ekki nýta sömu lögfræðiþjónustu. Þá verða mikilvæg fjarskiptakerfi og verkefni sem flutt voru frá Mílu til Símans á árinu 2012 aftur flutt  til Mílu. Til viðbótar verða mikilvæg fjarskiptakerfi flutt frá Símanum til Mílu. Mun starfsemi Mílu að þessu leyti eflast talsvert. Stuðlar þetta að því að samkeppni í smásölu eigi sér stað á jafnréttisgrunni og eflist þar með.

Skipti skuldbinda sig til að innleiða og viðhalda viðamikilli samkeppnisréttaráætlun. Í henni felst í aðalatriðum að tryggt sé með virkum aðgerðum og fræðslu að starfsmenn Skipta fylgi þessari sátt og öðrum skyldum sem leiða af samkeppnislögum.

Tilkynning Samkeppniseftirlitsins