Þau skilaboð berast nú frá bandaríska löggjafarvaldinu að um áramótin verði komið upp kerfi þar sem viðskipti með skuldatryggingar verði gerðar upp í dagslok. Skuldatryggingamarkaðurinn er metinn á 33 milljarða dollara. Bloomberg segir frá þessu.

Markaðurinn hefur verið lítt gagnsær þar sem viðskipti með skuldatryggingar hafa verið án milligöngu miðlægs aðila á borð við kauphöll. Regluverk um skuldatryggingaviðskipti hefur aldrei verið fyrir hendi.

Kauphöllin í New York, CME Group, Intercontinental Exchange of Atlanta og Eurex hafa öll lagt fram tilboð um að reka svonefnt „clearing house“ þar sem öll viðskipti með skuldatryggingar verða gerð upp í dagslok.

Bandaríski seðlabankinn hefur allt frá falli fjárfestingabankans Lehman Brothers þrýst á markaðsaðila að koma sér upp miðlægum uppgjörsaðila með skuldatryggingar.