Frestur til að skila inn óbindandi tilboðum í allar eigur heildsölufyrirtækisins Danól og Ölgerðarinnar Egils Skallagrímsson ehf. rennur út í dag. Á fimmta tug áhugasamra sóttu gögn um fyrirtækin, en MP Fjárfestingarbanka var falið að taka fyrirtækin í söluferli sem á að ljúka með framlagningu á bindandi tilboði þann 7. apríl.

Friðrik Einarsson, sérfræðingur á fyrirtækjasviði MP Fjárfestingabanka, segir að eftir fyrsta áfanga söluferlis þá hafi verið grisjað úr þeim hópi sem sóttu gögn og kynningarferli haldið áfram fyrir þá sem taldir voru sýna kaupum mestan áhuga.

"Við viljum ekki gefa upp hvað þetta eru margir. Það var gríðarlega mikill áhugi sem myndaðist í upphafi og við fórum markvisst í gegnum þann hóp og skárum hann mjög vel niður. Við hleyptum því aðeins þeim að sem við töldum eiga erindi áfram," sagði Friðrik. Hann vildi ekki upplýsa hversu stór þessi hópur er, en staðfesti að í hópnum væru erlendir aðilar.

"Ef áhugaverð tilboð koma, þá hefst áframhaldandi ferli þar sem einum eða fleiri aðilum verður hleypt áfram í gagnaherbergi Danól. Við erum ekki búnir að taka ákvörðun um hversu margir það verða, en væntanlega verða það ekki fleiri en þrír þó ómögulegt sé að segja til um það á þessu stigi."

Friðrik segir að ætlunin sé að opna gagnaherbergið á mánudag ef áhugaverð tilboða komi fram. Að öðrum kosti verði salan slegin út af borðinu.