Hrunið hefur almennt opnað augu fólks fyrir mikilvægi atvinnuuppbyggingar og þar með beinnar erlendrar fjárfestingar, að sögn Þórðar H. Hilmarssonar, forstöðumanns erlendrar fjárfestingar hjá Íslandsstofu.. „Í því sambandi er rétt að árétta að það sem við erum að vinna að er ekki að ýta sérstaklega undir kaup útlendinga á íslenskum verðbréfum. Við leggjum áherslu á nýfjárfestingu, þar sem fjárfestirinn setur sjálfur upp starfsemina hér á landi eða gerir það í samstarfi við Íslendinga. Slík fjárfesting er til langframa og því ekki eins kvik og verðbréfafjárfesting auk þess að byggja upp ný fyrirtæki eða stækka þau sem fyrir eru.“

Þá segir Þórður að fleira hafi breyst til batnaðar, þar á meðal skilningur stjórnvalda, eins og sjáist á nýrri rammalöggjöf um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi. „Við eigum á hverjum tíma að vinna í samræmi við stefnu íslenskra stjórnvalda, en lengi vel mótuðu stjórnvöld enga skýra stefnu um beina erlenda fjárfestingu. Auðvitað má segja að það sé stefna í sjálfu sér að halda að sér höndum og bíða eftir því að fjárfestar komi til landsins. Þannig hefur það verið undanfarna áratugi og þau fyrirtæki sem komu hingað hafa í raun fundið Ísland á eigin spýtur. Eina undantekningin frá því er þegar áhersla var lögð á að laða hingað stóriðju á 9. og 10. áratug síðustu aldar, ekki síst til að koma orku frá Blönduvirkjun í verð.“

Rætt er við Þórð H. Hilmarsson í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak undir tölublöð.